Færsluflokkur: Dægurmál
22.1.2008 | 17:07
Heil og sæl
Jæja nú er ég farin að taka fjölvítamín með steinefnum daglega ásamt hvítlaukshylkjum og sólhatti þannig að nú skal kvefið fara að yfirgefa líkama minn. Er orðin frekar þreytt á þessu eilífa sníti og neseríli í nös því ekki vil ég vera stífluð í nefinu og tala eins og nasirnar á mér séu límdar saman Og þá hlýt ég að fara að hressast heldur betur og hoppa og skoppa um hæðir og grundir... AS IF!!!
En við kjellur skemmtum okkur konunglega í búst um síðustu helgi Við byrjuðum á því að taka vaktaskipti á skóflunni til þess hreinlega að komast að húsinu með allan farangurinn O M G Við hefðum getað verið þarna í 2 vikur slíkur var maturinn og drykkurinn með í för. En við þurftum að moka pottinn upp gjörsamlega og vorum ekki lengi að því. Svava pottastjóri hentist í að græja pottinn og vorum við komnar í hann um kaffileytið á laugardaginn. Vorum svo með Racklette partý í kvöldmatinn og allskonar tegundir af kjöti, fiski, grænmeti og osti. Ótrúlega gott og mikil stemning að borða svona
Svo var auðvitað frönsk súkkulaðikaka a la Sandra í eftirmat og við fórum að sjálfsögðu aftur í pottinn á eftir og vorum lengi í þetta sinn Ótrúlega magnað að liggja svona í heitum potti í myljandi frosti og stjörnubjörtum himni með tunglið hangandi yfir sér. Geggjað alveg og auðvitað fórum við allar í pottinn með húfur og svona. Það er ekki spurning!!! Eftir skipun yfirbúst-stjórans
Nú svo hristi Sigga fram úr annarri erminni dýrindis klatta um morguninn og voru þeir borðaðir með sýrópi og smjöri, sluuuurp! Og reyktur lax frá Írisi ásamt fuuuuullt af öðru meðlæti sem rann ljúflega í okkur. Svo tókum við auðvitað sæmilegan göngutúr í brakandi blíðu eftir morgunmatinn eins og sönnum húsmæðrum sæmir í svona líka snilldar húsmæðraorlofsferð.
Takk fyrir mig
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.1.2008 | 00:06
Þreyta
Er óvenju þreytt þessa dagana. Mætti halda að ég hefði orðið undir valtara. Ég vakna dauðþreytt alla daga og er ekki nærri nógu úthvíld eftir nóttina. Ætti kannski að fara fyrr að sofa á kvöldin, hmmmm. Reyni þó yfirleitt að vera sofnuð fyrir miðnætti. Væri dauð held ég ef ég ætti ekki frí á fimmtudögum.
Er byrjuð að lesa Rimlar hugans núna og get bara varla lagt hana frá mér. Mig langar einhvern veginn að lesa lengra og vita meira hver örlög þessa fólks eru eða verða. Það er magnað að lesa þetta ég segi nú ekki annað. Lýsingarnar á því þegar hann var unglingur, úff. Ég sé það að maður hefur bara verið heljarinnar engill miðað við allt say no more!!! Ég kláraði nú ekki heilu kassana af bjór frá pabba á sínum tíma eins og þessi gerði. Allt í einu var allur bjórinn búinn sem hann ætlaði að fara að gefa gestunum
Er að fara í skvísuferð í búst á laugardaginn. Vonast til þess að fá andlega og líkamlega orku úr þeirri ferð. Það hlýtur eiginlega að gerast þar sem við æskuvinkonurnar erum að hittast og það er sko mikil skipulagning í kringum það get ég sagt ykkur. Hver á að koma með hvað, hvenær á að leggja af stað, hver fer með hverjum, hvað á að drekka og eta... Æ hvað það verður gaman. Ætlum að hafa Racklette-party Já ég veit að ég kem endurnærð úr þeirri ferð.
Svo er bóndinn að fara til Ítalíu, Austurríkis og Þýskalands á mánudaginn í heila 6 daga. Maður verður nú hálf einmana á meðan En hann er að fara að kíkja á og velja nýjan snjóbíl fyrir BFÁ.
Heyrðu já og Econlininn náði því á endanum að draga hinn upp
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.1.2008 | 16:42
Bein lýsing...
... á veðrinu þessa stundina. Það snjóar stanslaust og hefur gert frá því ég vaknaði í morgun. Ég sit hér á 4.hæð á Fossveginum á Selfossi og horfi í norður og sé ekki Ingólfsfjallið. Ég segi bara eins og unglingurinn sagði: "Sjáiði fjallið, það sést ekki!" En ég komst sem sagt í vinnuna kl. hálf tíu í morgun og fór auðvitað á jeppanum. Stebbi átti bara eftir að setja eina litla ró í ferlíkið til þess að hann væri götufær og jú hann gerði það í morgun þannig að kerlingin kæmist í vinnuna
En ég fór næstum útaf 2x í morgun því ég sá bara ekki veginn. Snjóblinda og stórhríð gerði það að verkum en ég hægði bara á ferðinni og reyndi að fylgja þeim stikum sem eftir eru á Vorsabæjarveginum Skyggnið varð betra þegar ég komst á malbikið og komst ég þá loks í vinnuna. Heldur var dagurinn rólegur þar því margir sem ekki þurftu að fara út úr húsi nutu þess að horfa á veðrið út um gluggann Við fórum þó út með nokkur börn e.h. og þau óðu skaflana og snjóinn á allri leikskólalóðinni upp að klofi og við kennararnir hentumst á milli til að losa þau en þeim fannst þetta bara mjög gaman og spennandi að fara út í svona veður.
Í þessum töluðu orðum er Econline að draga jeppa hér fyrir utan eða reyna það en hann er fastur og kemst hvorki afturábak né áfram Æ Æ hann getur ekki meir á stóra jeppanum sínum Nú fer hann og hleypir úr. Skyldi það takast betur. Framhald í næstu færslu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.1.2008 | 22:31
ooo þessi börn!
Dóttir mín kom til mín áðan, niðurlút, hengdi haus og með sorgarsvip í augunum: "mammaaaaaa, mig langar að fá svona" og benti á snakk í skál. Mamman sagði henni að hún væri nú búin að tannbursta og hefði borðað rétt áðan og ætti að vera uppi í rúmi. "En mig langar í svonaaaaaa" sagði hún aftur og mamman sagði að hún gæti fengið holur í tennurnar ef hún borðaði eftir að búið væri að tannbursta. Þá reisti hún líkamann upp, skellihló og sagði bara: "hahahaha ég hef aldrei prufað það, hahahahaha" Og hún fékk auðvitað snakkið. Svo kom hún aftur niður og mamman sagði henni að hún ætti að fara að sofa. "En mamma ég er komin til að fá að borða. Ég hlustaði á magann minn"
Ótrúleg alveg. Hvernig er hægt að neita svona?
En ég var að horfa á Pressu áðan á Stöð 2 og svei mér þá þeir lofa bara góðu þessir þættir. Alveg ágætlega vel leikið og svona raunverulegir hlutir að gerast. Spennandi og hlakka til að sjá fleiri þætti.
Pabbi á afmæli á morgun og ætlum við mæðgur að kíkja á hann með pakka undir hönd. Til hamingju með daginn pabbi minn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2008 | 10:56
Harðskafi
Ef þú hefur ekki lesið Harðskafi e. Arnald Indriðason og ætlar að lesa hana þá skaltu hætta að lesa HÉR! Ég er búin með hana en ég fékk hana í jólagjöf frá Stebba og Sigrúnu.
Ég verð nú að segja það að hver bókin á eftir annarri (e. AI) er þannig að maður lætur hana ekki svo auðveldlega frá sér. Maður vill vita hvað gerist næst... hverju kemst Erlendur að. Og eins vill maður vita hvort hugmyndir manns sjálfs séu þær sem gerast í raun og veru.
Þannig var það með Harðskafi. Mér datt það nú fljótlega í hug þegar ég las bókina að sjálfsmorð Maríu var ekki allt þar sem það var séð. Auðvitað ekki því þá væri engin spennusaga í uppsiglingu Það komu þarna lögreglumenn á Selfossi að rannsókninni í upphafi og ég sá auðvitað alltaf fyrir mér ákveðinn ungan lögreglumann í lögreglunni á Selfossi en mér fannst bókin þó fara rólega af stað. Svo komu þarna kaflaskil þar sem ég reyndi að lesa mig inn í nóttina en gat það ekki sökum syfju... og einu sinni þurfti ég meira að segja að lesa aftur nokkrar blaðsíður þar sem ég hef verið nánast sofnuð þegar ég las þær
En ég sá það fljótlega að Baldvin og Karólína hlytu að hafa eitthvað á samviskunni. Hún sem miðillinn Magdalena og hann læknirinn sjálfur gat gert ótrúlegustu hluti. En að helvítis fíflin skulu hafa komist upp með það sem þau gerðu... AARRRRGGGHHH. Mér fannst ótrúlegt að María hefði hengt sig sjálf þegar Erlendur var að tala við Baldvin í sumarbústaðnum en svo kom það líka á daginn. Helv.... stuðtækið var ónýtt og auðvitað setti hann hana í snöruna helvískur.
En jæja þetta var heljarinnar spennusaga sem maður gleymir sér algjörlega við að lesa
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.1.2008 | 17:01
Á árinu 2007...
... var margt brallað hjá okkur litlu fjölskyldunni. Við keyptum okkur fellihýsi og lögðum af stað í leiðangur síðasta sumar. Fórum m.a. á Akureyri á 17.júní, á Snæfellsnesið, við Langavatn á ættarmót, í Húnavatnssýsluna, Þjórsárdalinn um Verslunarmannahelgina... já og í laugardalinn ekki má gleyma því. Fyrsta útilegan okkar í nýja fellihýsinu var í Laugardalnum Vorum þar innan um fullt af útlendingum og tókum rölt í gamla hverfinu okkar því ég bjó nú einu sinni á Laugarnesveginum.
Á árinu fór ég líka í 2 augnaðgerðir. Sú fyrri sem gerð var rétt fyrir páska heppnaðist ekki nógu vel þannig að önnur var gerð í október og heppnaðist ljómandi vel. Rörið sem sett var í vinstra augað helst á sínum stað og virkar eins og það á að gera. Vonast ég til að hægra augað verði tekið í kringum páskana nú í mars þá losna ég væntanlega alveg við bréfþurrkurnar
Við fórum ekkert til útlanda á síðasta ári en munum væntanlega öll bæta úr því þegar við förum til Kanarí í febrúar Einnig fer ég í kynnisferð á vegum leikskólans í apríl til Danmerkur og svo er jafnvel enn ein ferðin á planinu með haustinu... nánar um það síðar.
Ég hélt áfram að fara 1x í mánuði á Landsann í lyf, eitt í æð og eitt sprautað undir húðina. Núna fer ég á þriggja mán. fresti og vonast ég til að ég fái að halda því. Ég fer í beinþéttnimælingu nú í janúar og þá kemur í ljós hvort ég þurfi að halda áfram á beinstyrkingarlyfinu.
Svo tókum við að okkur eitt stykki kött. Hann er yndislegur og algjör kelirófa og það gengur mjög vel með hann. Stækkar og stækkar... á alla kanta.
Árið 2007 var okkur á heimilinu nokkuð gott myndi ég segja. Vorum öll hraust og hress og það er nú fyrir mestu ekki satt?!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.12.2007 | 21:01
G L E Ð I L E G T * N Ý T T * Á R
Gleðilegt ár kæru vinir.
Farið gætilega með flugeldana um áramótin.
Og gangið hægt um gleðinnar dyr.
SKÁL!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.12.2007 | 17:10
Komnar inn jólamyndir
Við hér í sveitinni erum búin að hafa það rosalega gott um jólahátíðina. Við Sigrún vorum nú í náttfötunum langt framyfir hádegi og lágum uppi í rúmi og hofðum á Mr. Bean´s Holiday. Ótrúlega fyndin mynd og mikið hlegið
Svo er ég búin að liggja í kaffinu því við fengum Senseo kaffivél í jólagjöf Það er sterkt morgunkaffi hér alla morgna núna og svo fleiri og fleiri bollar yfir daginn. Ég er komin með útstæð augu og stjörf af kaffidrykkju hehehe. Nei nei ekki alveg svo slæmt en GOTT er kaffið, mmmmm. Maður kann sér nú hóf í kaffinu sem á öðrum sviðum
Sigrún fékk náttúrlega alveg fuuuullt af pökkum, nokkrar litlar dúkkur og fylgihluti og bíl fyrir herlegheitin (Polly Pocket), ferðatösku og Bratz dúkku með, allskonar liti, vettlinga, Stellu í framboði, Ég get lesið (bók með stafaböngsum), teppi, náttföt, peysu og ýmislegt fleira. Hún er búin að vera í miklu stuði um jólin og leikur sér mikið með dúkkurnar. Hún sofnaði nú ekkert mjög seint á aðfangadag en hún sofnaði yfir Stellumyndinni sem hún fékk
Það eru komnar inn jólamyndir á síðuna hennar Sigrúnar og þar getið þið séð herlegheitin öll.
Munið svo að styrkja Björgunarsveitirnar í flugeldunum Margt smátt gerir eitt stórt. Ég sé náttúrulega karlinn minn ekkert þessa dagana þar sem hann er á fullu í undirbúningi fyrir söluna. Hann kom t.d. heim kl. 03 í nótt og var farinn kl. 09 í morgun
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.12.2007 | 12:44
Gleðileg jól allir saman
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla kæru ættingjar og vinir og vona að þið munið eiga heillaríkt komandi ár. Kærar þakkir fyrir góðan vinskap og bloggskap á árinu sem nú er senn á enda.
Hafið það ævinlega gott!!
Bestu kveðjur Rannveig
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.12.2007 | 22:25
Verslum í heimabyggð... NOT!
Já mín er pirruð núna því ég er að leita að ákveðinni jólagjöf hér á svæðinu (þ.e. Selfossi) og ég finn hana ekki. Það vantar alveg svona sérverslanir eins og með gott kaffi, súkkulaðihúðaðar kaffibaunir, kandís-stangir og fleira + ýmisleg krydd og olíur. Það er bara ekkert um þetta á Selfossi. Og DVD úrvalið. OMG. Þvílíkt ruslúrval að annað eins hefur ekki sést í háa herrans tíð. Og svo segja þeir manni að versla í heimabyggð!!! Hvernig á það að vera hægt ef maður fær ekki það sem manni langar að gefa??? Eiga kannski allir að gefa ostakörfur og rauðvín þessi jólin? Eða konfektkassa ég bara spyr. Ekki misskilja mig. Það er alveg fínt að fá konfekt og rauðvín í jólagjöf en maður vill nú ekki endilega gefa það ár eftir ár. Þetta er nú meira pleisið. Það er ekki nóg með að öll pöbbamenning sé dauð heldur er ekki einu sinni hægt að velja almennilegar gjafir til jóla *Hneyksl*
Og ekki er úrvalið meira af leikföngum. Ég átti leið í leikfangaverslunina einu á Selfossi í dag og ætlaði að kaupa afmælisgjöf handa einni sem er að verða eins árs Nei nei. Ekkert sem vit og varið er í var hægt að finna þar. Þannig að ég fór í Nóatún. Og ekki tók nú betra við þar. Ég hreinlega nenni ekki til Reykjavíkur eftir einni jólagjöf og einni afmælisgjöf þannig að maður verður bara að sætta sig við það næstbesta eða þaðan af verra. Nei ok ég fann eitt alveg ágætt en mig langaði að gefa annað sem ég var búin að sjá í blaði úr annarri leikfangaverslun og hélt kannski að væri til hér eða eitthvað sambærilegt.
Ég er leið og pirruð yfir því að geta ekki gefið það sem mig langar til án þess að þurfa að keyra eftir því yfir fjallið í þessu annars skemmtilega veðri sem er búið að vera þessa dagana og vikurnar!
Já ég er hneyksluð á þessu. Þvílík annars uppbygging á svæðinu og hvað! Á ekki að vera nein þjónusta fyrir fólkið sem hér býr. Mér er ofboðið. Og hana nú. Þið megið alveg skjóta mig niður. Ég verð búin að jafna mig fyrir jól (VONANDI)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Bloggsíða Rannveigar
Ný könnun!!
Ýmsar síður
-
Ýmsar síður
Gunnur beib í DK -
Ýmsar síður
María Erla Kraftakona -
Ýmsar síður
Pálína Kraftakona -
Ýmsar síður
Dabba Kraftakona -
Ýmsar síður
Þóra í Danmörku -
Ýmsar síður
Sigrún prinsessa -
Ýmsar síður
Gamla bloggið mitt -
Ýmsar síður
Barnanet.is -
Ýmsar síður
Barnaland.is
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar