Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Vonbrigði

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum í dag Fýldur

Ég átti tíma hjá augn-skurðlækninum í dag.  Augnlæknirinn sem ég fór til um daginn sagði mér að skurðllæknir þyrfti að gera smávægilega aðgerð á mér til að laga augnlekann hjá mér.  Hann gaf mér upp nafnið á honum og svo var hringt í mig og ég boðuð í viðtal til hans áður en aðgerðin yrði gerð.  Hann þyrfti að skoða mig fyrst til að hann gæti metið hvað þyrfti í raun og veru að gera í aðgerðinni. 

En þarna var ég sem sagt komin kl. 10 í  morgun og var mætt stundvíslega í þetta viðtal.  Ég fékk mér sæti í þessari líka stóru biðstofu því þarna eru nokkrir læknar með stofur.  Eftir 45 mínútna bið fór ég nú að spyrja konuna í móttökunni hvort ekki færi að koma að mér.  Bíddu ertu að fara til Haraldar? spyr hún og ég jánka því.  Þá er nú betra fyrir þig að sitja hérna megin því hann er hér (og bendir í hinn enda biðstofunnar heldur en ég sat). Óákveðinn  Nú já segi ég og hugsaði margt en sagði auðvitað ekki orð og færði mig bara.  Korteri síðar er ég loksins kölluð inn.  Sem sagt heilum klukkutíma seinna en ég átti að mæta.  En jæja skítt með það.  Ég gat lesið slúðrið á meðan (hundgamalt auðvitað og ég löngu búin að frétta það allt) og fengið mér kaffisopa.

En ok.  Þarna er ég sem sagt komin inn til læknisins og hann spyr hvað hann geti nú gert fyrir mig.  Og ég segi honum þetta helsta... að ég sé með stífluð táragöng sem þurfi að opna í smávægilegri aðgerð sem hann muni væntanlega gera því mér hafi jú verið vísað til hans af öðrum lækni.  Að ég sé svona eftir lyfjameðferð því ég hafi greinst með krabbamein og ble ble ble... (er farin að kunna styttri útgáfuna ansi vel utan af... þ.e. það sem þeir þurfa að fá að vita þessir læknar).  Svo spyr ég hvort hann sé ekki með neitt í höndunum um mig.  Nei segir hann en það skiptir nú ekki öllu.  En jæja.  Hann skoðar á mér augun og setur svo deyfidropa í þau og byrjar að stinga með nál í augnkrókinn til að reyna að opna þetta (alveg eins og hinn hafði gert einum og hálfum mánuði áður) en auðvitað gekk það ekki.  Svo hann segir nei nei þetta er alveg lokað hjá þér.  En það er hægt að reyna að opna þetta með smá aðgerð en það ber nánast aldrei árangur.   Hissa  HAAAA??? Segi ég.  ALDREI ÁRANGUR.  Nei það er mjög líklegt að táragöngin séu bara ónýt og lagist ekki aftur.  Ég hef verið með þær nokkrar af sömu ástæðu og þú ert hér og það hefur yfirleitt ekkert að segja að reyna að opna þetta.  Það er ein og ein (já ég sagði EIN og EIN) sem þetta ber árangur hjá svo það er nú rétt að prófa þetta.  Komdu ég ætla að gefa þér tíma. Öskrandi Öskrandi Öskrandi  OOOOHHHHHH ég varð svo reið að mig langaði til að fara að grenja á staðnum.  En hélt í mér kökkinum þar til ég komst út í bíl og þá hófst táraflóðið mikla Gráta Gráta Gráta  Djöfull varð ég svekkt.  Gat hinn læknirinn ekki ropað því út úr sér við mig að það væru nú ekki miklar líkur á að þetta myndi lagast þó aðgerð yrði gerð.  Eða hvað er málið???  Ég fór þarna inn í bjartsýniskasti og með þá von um að aðgerð myndi MJÖG líklega laga þetta en nei nei.  Þá eru það bara þvílíkt litlar líkur að það tekur því varla að fara í þetta helvíti.  Að eyða tíma og kröftum í hana, vera svo með lepp fyrir hvoru auga (nema hann geri þetta í 2 aðgerðum, eitt auga fyrst og svo hitt seinna) og taka einhvern tíma í að jafna mig, því aðgerð er jú alltaf aðgerð, sama hversu smávægileg hún er.

En ég fékk sem sagt tíma kl. 14 nú á föstudaginn (aðstoðarkonan hans var svo almennileg að troða mér inn á milli því annars átti ég ekki að koma fyrr en 22. júní) og verð að koma með bílstjóra með mér því ekki get ég keyrt eftir þessa aðgerð.

Ég var sem sagt komin þarna inn í bíl og brunaði bara beint austur fyrir fjall aftur.  Ætlaði að kíkja aðeins í búðir fyrst ég var nú komin þessa leið en hafði svo bara engan áhuga á því.  Ég held það hafi verið myljandi þoka á leiðinni... annars sá ég það varla.  Ég keyrði bara heim eftir minni.

Svo nú leggjumst við bara öll á bæn um að ég verði ein af þessum fáu sem þetta ber árangur hjá en þið verðið að hjálpa mér.  Því ég er ekki sú bjartsýnasta eftir þessa ferð. Fýldur


Löng helgi og viðburðarrík

Jæja þá fór ég í þriðju kjólamátun á föstudaginn og viti menn.... ég fann hann Hlæjandi  Ég var búin að skoða hátt í 500 kjóla, ýmist á netinu eða á brúðarkjólaleigum.  Ég var auðvitað alltaf að leita að kjól með háu hálsmáli til að fela örið og brunninn en það var ekki að ganga nógu vel.  Það eru bara eiginlega engir svoleiðis kjólar til á Íslandi a.m.k.  Ég hafði fundið slatta af þannig týpum á ýmsum erlendum vefsíðum.  En ég lagði sem sagt upp með þetta í upphafi leitar að kjól en ákvað svo bara að gefa skít í það og mátaði fleiri týpur.  Og fann hann svo í Tveimur hjörtum í Bæjarlind.  Þvílíkt góða þjónustu hef ég ekki fengið í nokkurri búð Hlæjandi  Afgreiðslukonan kom fyrst með einn tvískiptan í rauðum lit sem passaði svo ekki alveg og hann var allt of fleginn fyrir mig.  Svo sagði hún að hún væri alveg með rétta kjólinn fyrir mig en hann væri.... svona og svona (segi ekki of mikið).  Jæja komdu með hann sagði ég, ég verð að prufa hann.  Og voila - hann smellpassaði á mig Hlæjandi Hlæjandi Hlæjandi og hún sýndi mér ýmislegt skart sem ég prufaði með og kórónu og allar græjur og ég kolféll fyrir þessu öllu saman.  Ég segi ekki hér í hvaða lit kjóllinn er eða hvernig hann er því eitthvað verður nú að koma á óvart.  Ullandi  En þessi kjóll er alveg nýr, hann var keyptur nú í mars og engin kona hefur verið í honum áður þannig að ég verð sú fyrsta.  Geggjað maður.  Bogga kom með mér og Ágúst litli (sonur hennar 4 mánaða) og það var frábært að hafa hana með.  Hún tók fullt af myndum sem ég get ekki hætt að skoða, he he.  Nú get ég farið að ákveða skreytingarefni, liti í brúðarvöndinn og annað í þeim dúr fyrst kjóllinn er kominn.  Nú og skóna vantar mig líka Glottandi S P E N N A N D I ...

Þegar kjóllinn var kominn í leitirnar fórum við Bogga og Ágúst í Maður lifandi og fengum okkur Burritos með grjónum og grænmeti.  Ótrúlega góður matur þarna alltaf og svona líka bráðhollur.   Litli kútur var eins og ljós allan tímann í bæjarferðinni okkar.  Rétt opnaði augun en var svo þreyttur að hann ákvað að sofa bara meira.  Svo fórum við í kaffi heim til Boggu og ég skellti mér síðan í lyfin um tvöleytið.  Þau tóku ekki nema klukkutíma að þessu sinni (gott að geta hringt á undan sér) svo ég var rokin aftur austur um þrjú.  Fór í óvissuferð með kellunum í krb.fél í Árnessýslu um fimmleytið og við fórum að Sólheimum í Grímsnesi.  Við lentum nú í smá vandræðum á leiðinni því við festum okkur Ullandi  Það var verið að hefla veginn og við þurftum að víkja fyrir heflinum og lentum þá í ruðningi og þar sat kálfurinn okkar pikkfastur.  En við brugðum okkur bara út úr rútunni og nokkrar vaskar kellur ýttu henni bara upp.  Ég tók auðvitað myndir af því á meðan, hehe.  En svo hoppuðum við aftur inn og héldum áfram.  Á Sólheimum tók á móti okkur Kolla í Bergmáli (samtökin sem buðu mér í Bláa lónið nú í vetur) því nokkrir Bergmálsvinir voru þangað komnir í sína árlegu orlofsviku.   Við fengum að borða þarna og fórum svo með þeim á kvöldvöku í Sesseljuhúsi.  Þar sungum við nokkur lög og svo kom hann Einar Júl (sem stofnaði m.a. Hljóma) úr Keflavík og söng fyrir okkur og sagði skemmtilegar sögur.  Nú svo var auðvitað endað á kvöldkaffi að hætti Bergmálskvenna og það var voða gaman að hitta þær aftur sem voru í Lóninu í Febrúar.  Þær ætluðu varla að þekkja mig því ég er komin með svo mikið hár Ullandi Brosandi Hlæjandi því ég var með smá brodda þegar þær sáu mig síðast.  Þeim fannst ég ekkert smá flott svona.  Og það var nú ekki leiðinlegt.

Á laugardaginn fórum við Stebbi að kjósa og brunuðum svo á Selfoss og sem leið lá til Reykjavíkur.  Ætluðum á grillhátíðina hjá Krafti í Hellisgerði.  En við komumst ekki lengra en til Hveragerðis því blessaður jeppinn bilaði á leiðinni.  Fýldur Já ég sagði BILAÐI.  Einhver slit í legum skilst mér...  Djöf#$%&"#og við komumst því ekki í grillið og ég sem var búin að hlakka svo til að fara.   Oooooh ég var nú svolítið svekkt  Öskrandi  En pabbi kom og sótti okkur og Sigrún fór svo með þeim upp í sumarbústað en ég fór heim. 

Um kvöldið fórum við Stebbi auðvitað á kosningavöku í Þingborg.  Þar náðum við í restina á snyrtivörukynningu og sölu á hinu ýmsa skarti.  Loksins kom svo að því að tilkynna hvaða nafn varð fyrir valinu á nýja hreppnum okkar.  Hann hlaut nafnið Flóahreppur.  Ágætis nafn það því við erum jú svoddan Flóafífl, muuuhhhaaaaaaa.  Og síðan voru kunngjörð úrslitin í kosningunum.  E-listinn fékk 3 menn inn og Þ-listinn 4 menn.  Jafnara gæti það nú ekki verið...  Nú þetta var held ég eini staðurinn (eða einn af fáum a.m.k.) á landinu þar sem var um sameiginlega kosningavöku listanna að ræða.  Öll dýrin í skóginum í sveitinni eru nefnilega vinir.  Glottandi Þetta var það fréttnæmt allavega að myndir birtust á NFS og Stöð 2 í fréttunum í hádeginu í gær frá kosningavöku þessari.  Og ef vel er gáð má sjá hvar bóndinn minn situr hinn stilltasti við borð með nokkrum góðum sveitungum og jú það sást glitta í mig þarna einhversstaðar við borðið líka í appelsínugulri peysu.  Og Berglind systir hans Stebba sást þarna í góðum prófíl en það var dáldið erfitt að þekkja hana þar sem hún hafði tekið þátt í tískusýningu fyrr um kvöldið og var því uppstríluð með eindæmum þarna.  Rosa skutla.  Það er hægt að skoða þetta hér  http://www.visir.is  á vef tv.  Þar er hægt að velja Kosningar 2006 og þá Kosningavakt 13-18 (frá 28.05) og hún byrjar á Þorfinni Ómarssyni þar sem Mörður og einhv. kemur í viðtal til hans, svo er sýnt frá Árborg (Eyþór m.a.) og svo kemur Flóafréttin þar sem við erum öll að fagna.   Jibbí gaman gaman.. hoppum allir saman Hissa

Við enduðum svo helgina á því að hendast upp í Brekkuskóg í gær til að ná í prinsessuna okkar.  Fórum þar í pottinn með henni og fengum svo grillaðan lax og fínheit að því loknu. 

Enn ein ný könnun hér til hliðar!!!


Loksins komið sumar??

   Jæja er nú sumarið að koma eða...???  Hér er allavega búið að vera 14 stiga hiti í dag og sólin aðeins búin að láta sjá sig.  Við erum búin að vera svolítið úti að skottast.  Reynir Örn og Svava komu í heimsókn og Sigrún og Reynir eru búin að vera voða góð að leika saman úti og inni á víxl.  Þau fóru meðal annars með Stebba út í Brandshús á traktornum.  Rosalega gaman.

Nú fer ég í Tvö hjörtu á morgun í kjólamátun nr. 3  Er annars búin að vera að skoða fullt af vefsíðum af Norðurlöndunum.  M.a.  www.nixa.se  og www.brudesalonen.dk   og fann alveg fullt af kjólum þar sem gætu gengið upp fyrir mig.  Ég get allavega haft margar týpurnar þarna að leiðarljósi ef ég læt sauma á mig kjól.  O þetta er svo spennandi Glottandi

Fer líka í lyf á morgun og svo í óvissuferð seinni partinn.  Vonandi verð ég allavega komin heim úr lyfjunum áður en rútan fer.  Þetta er ferð á vegum Bandsins (krb.félagið í Árnessýslu).  Svo á laugardaginn er grillhátíð á vegum Krafts í Hellisgerði í Hafnó.  Við stefnum þangað að sjálfsögðu og svo er kosningavaka í Þingborg um kvöldið sem maður má ekki missa af.   Held að við hjónaleysin séum búin að gera upp hug okkar hér í sveitinni. 

Hafið það gott um helgina og munið nú að nýta kosningaréttinn og fara á kjörstað. 


Nýr garður

Jæja þá eru komnar myndir af garðvinnunni sem fór fram hjá okkur um helgina.  Gömlu beðunum var bara mokað í burtu og settur nýr jarðvegur og búin til ný beð.  Einnig breikkuðum við göngustígana hjá beðunum því við höfum beðin á 2 pöllum núna í staðinn fyrir 3.  Þið getið séð myndir af þessu hér í albúmi merktu Maí 06.  Þetta er þvílíkur munur og miklu snyrtilegra.  Við settum eitthvað af gömlu fjölæru blómunum aftur í (eftir að búið var að saxa verulega af þeim) og svo er bara að sjá hvort þær þoli álagið þegar líður á sumarið.  Blómarósin á myndunum var voða dugleg að hjálpa til en annars á Stebbi heiðurinn að þessu öllu saman     Yndislegur þessi elska.  Enda ætla ég að giftast honum í ágúst, he heh!!  Og stefni að því að fara í mátun nr. 3 í vikunni.  Ætla að panta tíma á morgun.

Annars er komin ný könnun hér til hliðar og væri gaman ef þið tækjuð nú þátt í henni svona til gamans. 

Þið sjáið fleiri myndir ef þið smellið á Athugasemdir hér fyrir neðan en þið sjáið þetta betur í albúminu.  Endilega segið hvað ykkur finnst.


Finnland - ja hérna hér!

Ja hver hefði trúað því að Finnland ætti eftir að rústa Eurovision með þessu líka "freaksjóvi"  Ég varð allavega MJÖÖÖÖG hissa þegar ég sá að þeir væru á góðri leið með vinna þetta og svo varð það raunin.  Lagið er reyndar mjög gott, reyndar heyrir maður vel í Iron Maiden, Metallica, Poison, Kiss og hvað þetta heitir allt saman þarna í gegn og eins datt manni strax í hug stæling á Noregi síðan í fyrra en hvað með það. Ullandi  Já ég segi bara Hard Rock Hallelúja!!! Kannski maður skelli sér á keppnina að ári... hver veit!?   

Við Stebbi fengum okkur svo humar í gærkvöldi...  Nammi namm... djöfull er hann alltaf góður.  Steiktum hann í skelinni á pönnu upp úr miklu smjöri og hvítlaukssalt og pipar yfir og ristað brauð með.  Klikkuðum á hvítvíninu með en það slapp til með coke light.   Horfðum svo á stigagjöfina í Euro með og vorum alltaf jafn hissa þegar við sáum bilið aukast á milli Finnanna og þeirra sem voru nr. 2... voru það ekki Rússar?   Ég sem var svo viss um að Carola hin sænska tæki þetta.  Smá ABBA fííílíngur þar...  En þetta segir manni bara það að Eurovision er að breytast... maður sá það nú með Norsurunum í fyrra.   Já þótt hún Silvía Nótt okkar hafi ekki komist áfram.  Hver skildi þá fara næst fyrir okkar hönd???  Er ekki bara rétt að senda Hjálma eða Í svörtum fötum... ja eða bara Stuðmenn með enn einn slagarann.  Svei mér þá.    

En Stebbi er búinn að breyta garðinum okkar heldur betur.  Hann kom á litlu traktorsvélinni úr fjósinu inn í garð í gær og mokaði einu beðinu hreinlega í burtu.  Þetta var hvort eð er allt orðið ljótt og komið í órækt þannig að hann skipti líka um jarðveg.  Svo er bara að sjá hvort hægt sé að setja eitthvað annað þarna í.  Skelli inn myndum af þessu við tækifæri fyrir ykkur sem "komast ekki í sveitina til að berja þetta augum"

Seeee yaaa,  bææjjj


Kominn föstudagur ???

Jahérnahér... kominn föstudagur enn einu sinni.  Maður verður orðinn grár og gugginn áður en maður veit af.    

Vorsýningin í Árbæ hófst í dag og tókst svona glymrandi vel.  Fallegustu listaverk út um allt hús.  Börnin á Fosskoti sungu svo 4 lög og stóðu sig svoooo vel að maður fylltist stolti.  Og það var líka alveg ofsalega vel mætt að annað eins hefur varla sést.  Frábært alveg. 

Við mamma fórum í bæinn í gær og ég mátaði nokkra brúðarkjóla í 2 búðum.  Sandra og Sibba komu líka með (á sinn hvorn staðinn) og það var voða gaman og gott að fá nokkur álit.  Ég tók nú nokkrar myndir af mér í 2 kjólunum og leist nú nokkuð vel á annan þeirra.  Það er nú ekki um marga kjóla að ræða fyrir mig þar sem ég er með sérþarfir út af "mínu vandamáli" ef þið vitið hvað ég meina.  Það ræðir ekkert um neina flegna kjóla fyrir mig    og ég myndi helst vilja hátt hálsmál eða allavega lítið flegið en það er nú ekki mikið úrval af svoleiðis týpum.  Flestir eru þessir kjólar hlýralausir eða með mjóum hlýrum eða þá svoooo flegnir að maður yrði hræddur um að brjóstin poppi bara uppúr.      En við mamma kíktum aðeins í Prinsessuna og þar mátaði ég nokkra kjóla sem eru ekki svokallaðir "hefðbundnir brúðarkjólar" heldur meira svona samkvæmis.  Mér leist roooosalega vel á einn þeirra sem hefði kannski verið hægt að laga aðeins að mínum þörfum en ég ætla nú að máta meira og panta mátun á allavega 2 stöðum í viðbót og sjá svo til.  Get samt eiginlega ekki hætt að hugsa um þennan í Prinsessunni    en klikkaði alveg á því að taka mynd af honum þar sem við mamma höfðum svo lítinn tíma þar því við áttum að mæta annarsstaðar stuttu síðar.

Jæja.  Afmæli og Eurovision á morgun... engin Silvía Night (kannski sem betur fer miðað við viðtökurnar þarna úti í gær) svo ég hef ákveðið að halda bara með Carolu hinni sænsku.  Voða flott pía með mjög sigurstranglegt lag að mínu mati.  Svo gætu nú reyndar Írarnir tekið þetta með þessa væmnu ballöðu sína.  Það yrði þá í hva... 8 skiptið sem þeir myndu vinna er þakki?!?  Ég man nú eftir þeim hérna um árið með Hold me now með Johhny Logan.  Það var sko árið 1987 og þá var Gente di mare í 2. eða 3. sæti sem hefði auðvitað átt að vinna.  Snilldarlag og besta Eurovision lag allra tíma.  Eða það finnst mér að minnsta kosti og ég þykist vita að sumir sem lesa þetta blogg eru sama sinnis.  Nefni engin nöfn en ef þið þorið að koma hér undir nafni þá...   

Góða helgi allir landsmenn til sjávar og sveita.  Vejo vejo.

 


Howdie

  Hæ hó!

Er að prufa nýja broskalla.  Eru þeir ekki fínir?

Minni á skoðanakönnunina hér til hliðar   

Ég er að fara í fyrstu kjólamátunina á morgun.  Wish me luck    Og svo rétt í lokin þá eru komnar nýjar myndir á heimasíðuna hjá Sigrúnu.


Mæðradagurinn

Elsku mamma!  Hjartanlega til hamingju með daginn Koss 

Var fólk að taka eitthvað mark á þessu bulli mínu í gær? Óákveðinn  Þetta var nú bara smá grín svona á laugardegi.  Ekkert illa meint.  En það er samt ákveðin kurteisi að kvitta fyrir sig Glottandi og stundum þarf maður að minna á það á meira áberandi hátt en oft áður, he he.  Þannig að ef þú lesandi góður vilt ekki láta hrauna yfir þig þá skaltu bara kvitta og málið er dautt!!

Í gær gæsuðum við Kollu (rauðu) og byrjuðum á því að vekja hana eftir næturvakt.  Skutluðum í hana morgunmat og brunuðum svo af stað til Reykjavíkur.  Byrjuðum á Grasagarðinum í picknick með rauðvín, osta, vínber og nice.  Fórum svo í Nordica Spa þar sem gæsin fékk heilnudd og nokkrar af hópnum fengu axlarnudd í pottinum.  Ægilega notalegt... fórum svo í diskókeilu þar sem ég malaði kellurnar Glottandi  en 2 úr hópnum höfðu aldrei áður farið í keilu.  Bara gaman að því.  Enduðum svo á því að fara að borða á Tapas barnum.  Rosalega góðir smáréttir og bjór með.  Þetta var hin besta ferð og við fengum sól og gott veður allan tímann.  Svo var brunað aftur austur á Selfoss og við kíktum í Pakkhúsið.  Ég staldraði nú ekki lengi við þar því þar var pakkað af fólki og slatti sem ég kannaðist ekki við þannig að ég ákvað að ganga bara heim... ég held ég gangi heim, held ég gangi heim... til mömmu og pabba þ.e.a.s. og gisti þar.

Við Sigrún erum svo búnar að fara í Töfragarðinn á Stokkseyri í dag í blíðunni og það var hin besta skemmtun.    Mæli sko með þeim stað á svona blíðviðrisdegi.  Þar geta börnin hoppað á risa hoppudýnu, klifrað í köðlum og rennt sér í rennibrautum, farið í bílana og skoðað nokkrar tegundir af dýrum.  Voða gaman.


Enn ein lyfjagjöfin búin...

Jæja þá er ég komin heim úr enn einni lyfjagjöfinni.  Þetta gekk bara vel í dag og blóðprufurnar komu vel út... já já já... ble ble ble... mér finnst ég einhvernveginn alltaf vera að skrifa það sama hérna.  En það er nú gott... þetta gengur allt vel... og allt það.

Þessar lyfjagjafaferðir mínar eru nú bara orðnar skemmtilegri en oft áður.  Þó elskuleg systir mín hún Sibba sé búin að vera mér yndisleg stoð og stytta í þessu öllu saman með því að koma með mér í næstum því hverja EINUSTU lyfjagjöf frá upphafi.   Húrra fyrir henni.  En þá eru þessar lyfjagjafir orðnar skemmtilegri að því leytinu að ÉG FINN HREINLEGA EKKERT FYRIR ÞEIM Brosandi Brosandi Brosandi  og fæ þar af leiðandi engar aukaverkanir.  Svo hitti ég orðið hana Boggu mína í hvert sinn sem ég kem í bæinn og fæ hjá henni eitthvert nýtt gúmmulaði í hvert sinn.  Í þetta sinn fékk ég æðislega tómatsúpu og brauðbollur.  Voða gott.  Og kaffi og súkkulaði á eftir Ullandi 

En í gær fórum við leikskólakennarar úr Suðurlandsdeild Félags leikskólakennara að borða saman í Hestakránni á Skeiðunum.  Þar fengum við dýrindis mat og skemmtum okkur konunglega við söng og gítarspil... að ógleymdu skemmtiatriðinu (sem mín lék meðal annars í).  Þetta var svakalega gaman en hefði mátt vera meiri tími.  Við vorum varla byrjaðar að syngja þegar við þurftum að fara að koma okkur heim. 

Duri duri... duri duri duri...  en ekkert svaaaaar... ekkert svar!!!

Ég varð náttúrlega að láta fylgja mynd af flottu sangríunni sem ég útbjó handa okkur liðinu á Flúðum um síðustu helgi Glottandi Hún var sko æði.  Það var bara eins og við værum komin á Kanarí aftur.


Garðvinna

Húff púff... það er erfitt að eiga stóran garð.  Ég er búin að vera í 2 tíma að tína burtu dauða ruslið í garðinum nú eftir hádegið og það er nú samt heilmikið eftir.  Búin að vera á hlírabolnum hérna úti og í svitabaði enda er 19 stiga hiti hérna og sólin skín sem aldrei fyrr.  Svalur  Já ég sagði 19 stig.  Þetta er bara Kanaríveður Ullandi alveg hreint yyyyyndislegt.  Ég ákvað nú að vera ekki lengur í dag til að drepa mig ekki alveg strax á þessu.  Maður verður að taka þetta í áföngum þegar garðurinn er þetta stór og mikil er vinnan.  Ætla nú að láta bóndanum það eftir að hirða hrúgurnar svo hann fái nú að taka þátt í þessu þessi elska Glottandi  en það verður nú að viðurkennast að þetta eru ekkert uppáhaldsverkefnin hjá okkur hjónaleysunum.  En auðvitað alltaf gaman að sjá hvað kemur undan dauða gróðrinum og þegar allt fer að blómstra á sumrin.  Reyndar er orðið ansi mikið illgresi í þessu hjá okkur því það hefur ekkert verið stungið upp í þónokkur ár en ég er með eina hugmynd sem ég ætla að hrinda í framkvæmd bráðlega og ef hún virkar ekki þá verður þessu bara mokað í burtu öllu saman og sett möl eða gras í staðinn.  Já og kannski fáum við okkur nokkra rósarunna svona upp á grínið Hlæjandi  þeir eru svo fallegir.  Svo í haust ætla ég að henda niður nokkrum haustlaukum.  Gaman að því.  En núna er fullt af blómstrandi Liljum í garðinum sem eru voða fallegar og einn og einn túlípani sem er að fara að springa út.  Einhverjar leyfar frá því fyrir nokkrum árum Ullandi   Ég skal setja inn myndir bráðlega af þessu afreki mínu (tiltektinni) svona fyrir og eftir myndir. 

Jæja best að koma sér í sturtu og skutlast svo á Selfoss eftir prinsessunni.  Er sko búin að taka út krítarnar hennar og nú verða gerð listaverk á stéttina Glottandi

Ekki má gleyma afmæliskveðju dagsins.  Hún Anna Kolla frænka mín á afmæli í dag.  Óskum við hér í Vorsabæ henni innilega til hamingju með daginn  Koss  Kossar og knúúúúús.  En í dag er nú reyndar akkaúrat eitt ár síðan ég fékk greininguna Öskrandi  en það er nú önnur saga...  ha?  Ég er ekki greind... ertu ekki greind?  Nei ég sé það núna... þetta er minn litur!!  Ha ha ha ha.... (skaup '87)


Næsta síða »

Um bloggið

Bloggsíða Rannveigar

Þú ert kominn á bloggsíðuna mína. Allt sem hér er skrifað er skrifað af mér og endurspeglar ekki endilega mat þjóðarinnar.

Höfundur

Rannveig Bjarnfinnsdóttir
Rannveig Bjarnfinnsdóttir

Sveitakjella, móðir, eiginkona, deildarstjóri, leikskólakennari, ljón, föndrari og mikil áhugamanneskja um gamla, íslenska skemmtiþætti.  Er þakki Addi Palli og Bergþóra?  Vann ég ekki þetta tæki á basarnum? 

Netfang:  rannveig@emax.is  

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Ný könnun!!

Hvað ertu?

Nýjustu myndböndin

Dansnámskeið

Bomboleo

Heljarstökk

Nýjustu myndir

  • Vinir á El Duke
  • Á skemmtun með Ómari Ragnarssyni
  • Skvísan fyrir utan húsið okkar

Ýmsar síður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband