Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Dofin

Sit hér við tölvuna hálf dofin...  þegar ég fletti mogganum sé ég allt of mörg andlit á minningargreinar síðunum sem ég kannast við.  Gráta

Ég kannaðist aðeins við Jóhönnu Hafsteinsdóttur sem var jarðsungin í dag.  Við unnum einu sinni saman á Sæborg í Reykjavík.  Hún var alltaf í góðu skapi og það var sjaldnast lognmolla í kringum hana.  Hress stelpa og eftirminnileg og ég man að það var gaman að fara út að skemmta sér með henni.  Mér brá því heldur betur þegar ég hitti hana fyrir um mánuði síðan á göngudeild krabbameinslækninga.  Þar stóð hún og spjallaði við aðra unga konu sem ég þekki lítillega og var sjálf í lyfjagjöf.  Jú hún kannaðist líka við mig og okkur fannst undarlegt hvað heimurinn er lítill.  Blessuð sé minning hennar.  Það er sárt að vita til þess að hún láti eftir sig eiginmann og unga dóttur.  Það fara margar hugsanir á kreik þegar maður les minningargreinarnar. Gráta

Já ég átta mig betur og betur á því að það eiga sjálfsagt margir eftir að kveðja þennan heim sem ég kannast við.  Þar sem meðferðin sem ég er í er það löng þá sé ég marga á göngudeildinni bæði veika og heilbrigða ef svo má segja.  Og kynnist mörgum í svipuðum sporum og ég er í.  Það eru a.m.k. 3 kunnugleg andlit í mogganum í dag.  Óákveðinn  Og í vetur lést einn sem við Stebbi vorum með á námskeiði tengdu krabbameini í október og nóvember.

Æ hugsanirnar fara bara á flug í dag og ég verð sorgmædd.    Ég ætla að fara að koma mér út í góða veðrið.


Nú helgin er liðin...

Áttum yndislega helgi með vinum okkar í sumarbústað í Heiðarbyggð um helgina.  Fórum á föstudaginn og keyrðum inn í rigninguna Óákveðinn  á Flúðum og Svava, Einar og Reynir Örn komu stuttu síðar.  Við elduðum kvöldmat og svo skelltum við okkur í pottinn þegar börnin voru sofnuð.  Það var nú bara notalegt að fara í pottinn í rigningunni.

Á laugardaginn vöknuðum við í sólskini og börnin skelltu sér strax í pottinn með pöbbum sínum Brosandi á meðan við kellurnar útbjuggum desertinn sem vera átti um kvöldið ásamt því að líta í blöð og kíkja út í sólbað með kaffibollann.  Mamma og pabbi kíktu svo í kaffi um miðjan daginn en um kvöldið grilluðum við lamb og naut og borðuðum desertinn góða.  Fórum svo afvelta í bælið Ullandi 

Á sunnudeginum var aftur komin sól og þá skelltum við húsfrúrnar okkur í pottinn (en ekki hvað Glottandi) með börnunum og höfðum það gott.  Svo fórum við að tína dótið út í bíl smátt og smátt eftir hádegið og fórum svo í heimsókn til mömmu og pabba í nýja sumarbústaðinn þeirra sem er í Brekkuskógi.  Þessi líka fíni bústaður á hreint frábærum stað í miklum gróðri.  Og ekki skemmir fyrir að það er heitur pottur á staðnum Glottandi  og rólur og vegasalt sem fylgir bústaðnum.  Svava og co skunduðu heim um kaffileytið en við stöldruðum lengur við og Sibba, Hafþór og Hafsteinn komu og Sigrún og Hafsteinn skelltu sér í pottinn.  Ég held að það hafi verið pottaferð nr. 5 hjá Sigrúnu síðan á föstudaginn Óákveðinn  og nú verður tekin hvíld á böðum hjá prinsessunni til að hlífa húðinni því hún versnar svo við að fara í vatn.  Nú við enduðum á að borða hjá mömmu og pabba grillkjöt og tilheyrandi og svo þegar við vorum að fara þá komu Solla, Gunnar og Bogga amma í heimsókn til þeirra.

Bústaðirnir í Heiðarbyggð eru voðalega fínir og flottir Hissa  eða að minnsta kosti nýtískulegir.  Rándýr hönnun en svo eru þeir nú eiginlega bara kuldalegir þegar inn í þá er komið.  Vantar alveg myndir á veggina og svo eru loftin og veggirnir alveg eins þannig að allt fellur saman í eitt.  Hátt til lofts og það bergmálar um allt þegar stólarnir eru dregnir eftir gólfinu Óákveðinn  En Þetta var nú samt alveg frábær helgi í alla staði.  Sigrún og Reynir voru voða dugleg að leika sér saman alla helgina.  Þau horfðu mikið á Ávaxtakörfuna og Bangsimon, hlupu út á róló og lituðu í litabækur og hjóluðu á milli þess sem þau busluðu í pottinum Hlæjandi  Takk fyrir frábæra helgi Svava, Einar og Reynir Örn.

Yfir og út!!!


Eitt ár fljótt að líða

Já pælið í því.  Það er komið heilt ár síðan ég fór á leitarstöðina í krabbameinsskoðun til að láta líta á hnútinn sem ég hafði fundið fyrir nokkrum vikum áður.  Fýldur  Tíminn er ótrúlega fljótur að líða.  Ég hafði farið ein í bæinn og byrjaði á því að fara í Kringluna og fékk mér að borða.  Ætlaði svo að kíkja á buxnadragt eftir tímann.  Ákvað að hringja í Sibbu systur mína til að athuga hvort hún væri á lausu þennan dag og hvort hún vildi kannski koma og hitta mig.  Jú hún var laus og kom í Kringluna.  Við fengum okkur kaffi og svo ákváðum við að hún kæmi bara með mér í skoðunina og svo ætluðum við aftur í kringluna til að skoða dragtir.

Ég var óvenjulega lengi inni og Sibba vissi náttúrlega ekkert hvað var í gangi.  Hún beið frammi á meðan ég fór í brjóstamyndatöku og svo í sónar.  Þar var tekið sýni og röntgenlæknirinn tilkynnti mér að mjög líklega væri þessi hnútur í brjóstinu á mér illkynja krabbamein.  Gráta  Þarna komu fyrstu tárin.  Þetta var aldeilis kjaftshögg að fá.  Ég fór fram og borgaði og Sibba sá strax að eitthvað var að.  Ég sagði henni það sem læknirinn hafði sagt, og að ég yrði að fara í aðgerð til að láta taka hnútinn hvort sem hann væri góð- eða illkynja.  En líklegra hafði hún talið að hann væri illkynja.

Við Sibba fórum náttúrulega bara heim til hennar og fengum okkur sterkt kaffi og ég hringdi nokkur símtöl í mína nánustu.  Ég þurfti að bíða í 5 daga  eftir úrskurðinum og Sibba og Stebbi komu með mér í þann tíma.  Og við vitum nú framhaldið er þakki!? Fýldur

En einu ári síðar er ég bara hress.  Það versta er að baki, lyfjagjöf, brottnám brjósts, aftur lyfjagjöf, geislar og endurhæfing.  Nú komin aftur í vinnuna og það munar bara 2 dögum uppá að það hafi verið heilt ár sem ég var frá vinnu.  Skrítið.  Mér finnst þetta meira vera nokkrar vikur.  Óákveðinn


Vinna vinna vinna...

Jæja þá er ég byrjuð að vinna aftur og er það þvílík gleði Hlæjandi og það var vel tekið á móti mér í morgun.  Já já Svava tók á móti mér með rós og allir buðu mig velkomna aftur.  Gott að finna að mín hefur verið saknað Brosandi því ég hef saknað þess líka að hafa verið í vinnunni.  Sérstaklega núna eftir áramótin þegar heilsunni hefur farið svona mikið fram og orkan kemur á ný.  Frábært alveg.

Við Sigrún fórum í hjólabæ áðan og völdum handa henni hjól.  Fjólublátt með stjörnum á og svo fékk hún bleikar grifflur og barbie bjöllu og allt.  Hún á Baby born körfu sem við skellum svo bara á hjólið.  En hún hefur svo annað hjól til að hjóla á inni í fjósi.  Þannig að hún verður væntanlega orðinn mikill hjólagarpur eftir sumarið Brosandi

En Sigrún er alltaf að horfa á Ávaxtakörfuna og Bangsímon þessa dagana (það sem hún fékk í afmælisgjöf) og nú vella brandararnir út úr henni.  Einn er svona úr Ávaxtakörfunni:  Sagðirðu ber... ertu kannski allsber? ha ha ha.  Annar svona:  Bananasplitt.  Ef þú rennur á bananahýði ferðu í svona splitt... ba na na splitt.  Hlæjandi Hlæjandi Hlæjandi  Svo hlær hún mannamest.  Ótrúlega fyndið alveg.

Best að fara að huga að súpunni.  Er að elda þessa dýrindis grænmetissúpu,  ummm. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Bloggsíða Rannveigar

Þú ert kominn á bloggsíðuna mína. Allt sem hér er skrifað er skrifað af mér og endurspeglar ekki endilega mat þjóðarinnar.

Höfundur

Rannveig Bjarnfinnsdóttir
Rannveig Bjarnfinnsdóttir

Sveitakjella, móðir, eiginkona, deildarstjóri, leikskólakennari, ljón, föndrari og mikil áhugamanneskja um gamla, íslenska skemmtiþætti.  Er þakki Addi Palli og Bergþóra?  Vann ég ekki þetta tæki á basarnum? 

Netfang:  rannveig@emax.is  

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Ný könnun!!

Hvað ertu?

Nýjustu myndböndin

Dansnámskeið

Bomboleo

Heljarstökk

Nýjustu myndir

  • Vinir á El Duke
  • Á skemmtun með Ómari Ragnarssyni
  • Skvísan fyrir utan húsið okkar

Ýmsar síður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 123810

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband